Landsnet og þýska fyrirtækið Nexans hafa samið um kaup á níu kílómetra löngum jarðstreng sem á að tengja fyrirhugað kísilver United Silicon í Helguvík við raforkuflutningskerfið. Þetta kemur fram í Markaðnum á Fréttablaðinu.

Samkomulagið hljóðar upp á tæplega 1,3 milljónir evra sem jafngildir um 200 milljónum króna. „Nú er unnið af kappi að undirbúa nýtt tengivirki í Helguvík sem rís við hlið kísilversins,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, í viðtali við Markaðinn. Strengurinn verður framleiddur í verksmiðju Nexans í Hannover og er stefnt að því að leggja hann sumarið 2015.