Landsnet hefur í dag leitað eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til að taka tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi til að geta hafið framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2, háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að samningar hafi tekist við fjóra af hverjum fimm landeigendum um 62% lands á leið væntanlegrar línu en ítrekaðar samningsumleitanir við aðra landeigendur hafi reynst árangurslausar. Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 2,2 milljarðar króna og áætlaður framkvæmdatími hálft annað ár, frá júlí 2013 til ársloka 2014. Mannaflaþörf verkefnisins er 42 ársverk og gert ráð fyrir að allt að 50 manns vinni að því þegar umsvifin verða hvað mest, síðsumars 2014.