Verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu voru afhent í dag á ráðstefnunni Skapandi opinber þjónusta. Ráðstefnan var haldin á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Eitt verkefni hlaut nýsköpunarverðlaun 2014 og fjögur verkefni til viðbótar fengu viðurkenningu fyrir nýsköpun. Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2014 hlaut Landspítali- Háskólasjúkrahús fyrir verkefnið Rauntíma árangursvísar á bráðadeild.

Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars eftirfarandi: „Bráðasvið LSH er mjög flókin starfsemi og erfitt getur reynst að hafa yfirsýn um úrlausn og stöðu skjólstæðinga sem leita þangað þjónustu á hverjum tíma.   Með hugkvæmni og áræðni voru nýttar og tengdar saman upplýsingar sem liggja fyrir í rauntíma og þær settar fram með myndrænum hætti.   Rauntíma árangursvísar á bráðadeild er einfalt tæki, það nýjung á sínu sviði og ekki til sambærilegt kerfi í nágrannalöndum okkar. Með verkefninu eru nýttar hugmyndir út framleiðslugeiranum til að auðvelda störf í hefðbundnum þjónustugeira“

Eftirtalin verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:
Dalvíkurbyggð fyrir verkefnið Söguskjóður, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir verkefnið „Að halda glugganum opnum“,  Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgeðis í menntamálum og  Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.