Íslenska lánshæfismatsfyrirtækið Reitun hefur gefið Landsvirkjun lánshæfiseinkunina A sem er sama einkunn og íslenska ríkið hefur. Horfur eru sagðar stöðugar. Í röksemdum Reitunar segir að Landsvirkjun búi yfir góðu sjóðstreymi, miklum möguleikum á framtíðarvexti, góðu eignasafni og ríkisábyrgð á skuldum félagsins. Þá er bent á að nýlegar aðgerðir fyrirtækisins hafi dregið úr áhættu.

Helstu ógnanir við rekstur Landsvirkjunar um þessar mundir eru nefndar greiðslufall ríkisins, vaxtahækkanir, raunlækkun á orkuverði og lækkun álverðs.

"Landsvirkjun er eitt af öflugustu og mikilvægustu fyrirtækjum landsins. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og sjóðsstreymið gott. Niðurstaðan er einkunnin A sem er sama einkunn og íslenska ríkið. Breytingar á lánshæfi ríkisins geta haft áhrif á lánshæfi Landsvirkjunar og á samanburð við ríkið vegna óbeinnar ríkisábyrgðar. Horfur eru stöðugar," segir í skýrslu Reitunar.