Lengi var deilt um hvort meta ætti vatnsréttindi Jökulsár á Dal til fasteignamats. Árið 2012 úrskurðaði innanríkisráðuneytið að Landsvirkjun bæri að greiða fasteignaskatt af vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun höfðaði mál gegn Fljótsdalshéraði og Þjóðskrá Íslands vegna úrskurðarins.

Í október 2014 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm, þar sem úrskurður ráðuneytisins var felldur úr gildi. Þjóðskrá og Fljótsdalshérað áfrýjuðu þeim dómi til Hæstaréttar sem í október síðastliðnum snéri dómi Héraðsdóms við. Niðurstaða Hæstaréttar var sem sagt að skrá þyrfti vatnsréttindi jarðeigenda við Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Það þýðir að Fljótsdalshérað getur innheimt fasteignagjöld af Landsvirkjun vegna vatnsréttindanna.

Í framhaldi af þessu þurfti Þjóðskrá að meta réttindin til fjár og lauk þeirri vinnu í byrjun þessa árs. Réttindin voru metin á 2.326 milljónir króna. Þar af eru 1.740 milljónir innan Fljótsdalshéraðs og 586 innan Fljótsdalshrepps.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að nú sé sveitarfélagið búið að ákveða að miða álagninguna við C-flokk fasteignamats, sem þýði að sveitarfélagið muni fá á bilinu 27 til 28 milljónir króna frá Landsvirkjun á ári. Vegna fasteigna Í C-flokki er sveitarfélagi heimilt að leggja á 1,32% fasteignaskatt auk 25% álags. Fljótdsdalshérað hefur nýtt sér þetta og nemur fasteignaskatturinn sem lagður er á vatnsréttindin því 1,65% af fasteignamatsgrunninum sem reiknaður var út af Þjóðskrá.

Óheimilt að mismuna

Í skriflegur svari staðfestir Landsvirkjun að ákveðið hafi verið að kæra þessa ákvörðun sveitarfélagsins til yfirfasteignamatsnefndar. Í svarinu er áréttað að Landsvirkjun geri enga athugasemd við útreikninga Þjóðskrár. Álagning fasteignaskatt sé sjálfstæð ákvörðun sveitarfélagsins og Landsvirkjun sé að bregðast við henni. Fyrirtækið telji að sveitarfélagið eigi að miða við A-flokk fasteignamats en ekki C-flokk. Með öðrum orðum þá krefst Landsvirkjun þess að greiða 0,5% fasteignaskatt en ekki 1,65%.

"Fasteignaskattspróstenda á jarðeignir er samkvæmt lögunum 0,5%," segir í svari Landsvirkjunar. "Landsvirkjun er þeirrar skoðunar að óheimilt sé að mismuna aðilum eftir því hver eigandi viðkomandi réttinda, jarðeigna eða jarðeignahluta, er og því beri við skattlagningu vatnsréttinda Landsvirkjunar, sem skráð eru sem þinglýst jarðeignaréttindi Landsvirkjunar á viðkomandi jörðum, að fara að sömu reglum og gilda um skattlagningu jarðeigna að öðru leyti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .