Landsvirkjun hefur keypt hlut Atvinnueflingar Þingeyjarsveitar og Orkuveitu Húsavíkur í Þeistareykjum ehf. Landsvirkjun á nú allt hlutafé í Þeistareykjum.

Þeistareykir ehf. standa fyrir borunum og rannsóknum til hagnýtingar á orku úr jörðinni Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Rannsóknum og undirbúningi að jarðhitavirkjun hefur miðað vel á síðustu árum en á svæðinu er gert ráð fyrir allt að 200 MW jarðhitavirkjun samkvæmt fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Gert er ráð fyrir að virkjað verði í áföngum en þegar hefur verið aflað gufu fyrir einni vélasamstæðu.

Landsvirkjun náði samkomulagi við Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar ehf. um kaup á 0,087% hlut félagsins í Þeistareykjum. Landsvirkjun hefur einnig gengið frá samkomulagi við Orkuveitu Húsavíkur ohf. um kaup á 3,2% hlut þeirra í félaginu. Fyrir hlutina greiddi Landsvirkjun samanlagt kr. 201.202.856,-.