Landsvirkjun hefur samið við Evrópska fjárfestingabankann um 125 milljóna evra lán, jafnvirði 17 milljarða króna, til fjármögnunar á jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum. Fjármögnunin verður nýtt til að styðja við hönnun, byggingu og rekstur 90 MW virkjunar, en níu holur með 50 MW afkastagetu hafa þegar verið boraðar og prófaðar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Cristian Popa, framkvæmdastjóri og yfirmaður verkefna fjárfestingabankans í ríkjum EFTA, undirrituðu lánasamning í höfuðstöðvum Landsvirkjunar í morgun. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hörður að lánið fjármagni stóran hluta Þeistareykjavirkjunar.

20% af lánum Landsvirkjunar án ríkisábyrgðar

Hann segir ánægjulegt að lánið sé án ríkisábyrgðar. „Það er verið að veita lánið bara út frá styrkleika fyrirtækisins. Það er mikil viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið undanfarin ár í því að styrkja rekstur fyrirtækisins,“ segir Hörður.

Aðspurður segir hann stefnt á að minnka áfram vægi lána án ríkisábyrgðar í efnahagsreikningi Landsvirkjunar. „Við teljum að það sé heilbrigt ástand á fyrirtækinu að það sé metið á sínum eigin verðleikum,“ segir Hörður og nefnir einnig að það bæti lánshæfismat ríkisins að þurfa ekki að bera ábyrgð á öðrum.

Hann segir að eftir að lánið frá Evrópska fjárfestingarbankanum hafi verið tekið séu 20% af lánum Landsvirkjunar án ríkisábyrgðar.

Nettóskuldir muni lækka

Hörður segir að jafnvel þó fyrirtækið taki þetta lán muni nettóskuldir þess lækka. Sjóðstreymi verður áfram notað til að greiða niður eldri lán.

Orkan úr Þeistareykjarvirkjun fer að mestu leyti til PCC á Bakka. Umhverfismat Þeistareykjavirkjunar er fyrir 200 megavatta virkjun en ekki hefur verið tekin ákvörðun um að hafa virkjunina svo stóra, að sögn Harðar. Hann segir að lögð verði áhersla á að fylgjast með jarðvarmakerfinu og sjá að nýtingin sé sjálfbær.