Landsvirkjun hefur samið um sambankalán að virði 400 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar 30,3 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að lánið yrði nýtt til að endurfjármagna lán að sömu upphæð frá árinu 2003. Hann sagði einnig að lánið myndi styðja við framkvæmdir fyrirtækisins við Kárahnjúka og að það verði nýtt sem trygging verðbréfa sem þegar eru í umferð.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að vextir lánsins séu 4,25 punktar yfir LIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í London. Vaxtakjör Landsvirkjunar hafa því lækkað umtalsvert en vextir lánsins frá árinu 2003 voru 13,75 punktar yfir LIBOR.

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hagstæð kjör fyrirtækisins megi rekja til mikils flæði á lánamörkuðum og að nafn Landsvirkjunar sé vel þekkt nafn á markaðnum. Hann sagði ennfremur að ákveðin vöntun væri á "íslenskum hágæðapappír á markaðnum" vegna takmarkaðrar lántöku íslenska ríkisins.

Landsvirkjun er með ríkisábyrgð og hefur lánshæfismatið AA- hjá matsfyrirtækinu Standard & Poor's, sem er spegilmynd lánshæfismats ríkissjóðs. Lán Landsvirkjunar er til sjö ára en ríkissjóður fékk lánaða 250 milljónir Bandaríkjadala í júní síðastliðinn, og er lánið til fimm ára á fjórum punktum yfir LIBOR. Sérfræðingar á sambankalánamarkaði segja því að kjör Landsvirkjunar séu hagstæðari en ríkissjóðs Íslands þar sem lánstíminn er lengri hjá Landsvirkjun.

Bankarnir Barclays, Citigroup, Landsbanki Íslands, Svenska Enskilda Banken, Societe Generale og Sumitomo Mitsui Banking Corporation leiddu lán Landsvirkjunar, sem selt var á sambankalánamarkaði í Evrópu. Umframeftirspurn var eftir láninu og ekki er búist við að það verði nýtt nema í nauðsyn ef Landsvirkjun reynist erfitt að fjármagna sig með öðrum verðbréfum til að styðja við núverandi framkvæmdir fyrirtækisins. Talið er að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskur banki leiðir svona stórt sambankalán á alþjóðavísu.