Hlýnandi veðurfar og bráðnun jökla – sem leiðir af sér meira vatnsmagn í ám sem falla af hálendinu – ræður því að Landsvirkjun skoðar nú hugsanlegar breytingar á virkjunum sínum með tilliti til aukinnar framleiðslugetu þeirra.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en á föstudaginn var hornsteinn lagður að Búðarhálsvirkjun sem er sjötta og síðasta aflstöðin sem Landsvirkjun reisir á ofanverðu Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Teljast allir virkjanakostir á þeim slóðum nú fullnýttir.

Hins vegar kemur fram að hjá Landsvirkjun séu tveir möguleikar sérstaklega í skoðun. Í fyrsta lagi stækkun Búrfellsstöðvar; það er að byggð verði ný 70 MW virkjun nokkuð sunnan við núverandi virkjun undir Sámsstaðamúla. Sú stöð myndi nýta yfirfall Þjórsár, það er vatn sem ekki nýtist Búrfellsvirkjun heldur er veitt fram um hinn gamla farveg Þjórsár.

Þá er einnig huga að Sigöldu en í blaðinu kemur fram að senn líður að endurnýjun tækjabúnaðar virkjunarinnar sem byggð var fyrir um 40 árum. Vélar hennar eru þrjár en með því að skipta þeim út og bæta fjórðu vélinni við, eins og alla tíð hefur verið gert ráð fyrir, væri t.d. hægt að auka framleiðslu úr 150 í 200 MW.