95,6% svarenda könnunar Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sumarið 2014 sögðu að ferð þeirra til Íslands hefði staðist væntingar þeirra. Rúmelga 83% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Í tilkynningunni segir að langflestir þáttakendur kannanarinnar hafi verið hér í fríi (86,9%) og var dvalarlengdin að jafnaði um 10 nætur, samanborið við 10,2 nætur í síðustu sumarkönnun. Flestir, eða nærri helmingur ferðamanna, gisti hins vegar á bilinu 3-7 nætur. Áhugavert er að sjá að hver ferðamaður er að gista að jafnaði  álíka margar nætur og fyrir þremur árum þannig að mikil fjölgun ferðamanna hefur ekki haft áhrif í þá átt að fleiri séu að koma til styttri dvalar.

Flestir á eigin vegum

Þegar spurt er hvort hafi verið ferðast á eigin vegum, í pakkaferð eða vegna atvinnu, kemur í ljós að hlutfall þeirra sem ferðast á eigin vegum hefur aldrei verið hærra, eða 84,3%. Af þeim bóka þrír af hverjum fjórum ferð sína beint hjá flugfélagi eða á netinu af öðrum vefsíðum en flugfélaga.

Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun á tímabilinu júlí til október 2014 þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og á Seyðisfirði meðal ferðamanna sem ferðuðust með Norrænu. Úrtakið var 4.586 manns og var svarhlutfallið 57,3%.