Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir ákærur sérstaks saksóknara byggja á röngum skilningi á hlutverki hans í bankanum. Hann sé ákærður fyrir umboðssvik, en í raun hafi hann aldrei haft „umboð til þess að taka ákvörðun í einstökum viðskiptum bankans þar með talið lánveitingum til einstakra viðskiptavina umfram það umboð sem hann hafði sem formaður lánanefndar stjórnar.“

Hann segist hafa fylgst með viðskiptum Al Thani, sem keypti hlutabréf í Kaupþingi með láni frá bankanum sjálfum, „en ekki velt fyrir sér nánari útfærslu á þeim“. Hann hafi verið fylgjandi sölu hlutabréfanna og því að Kaupþing fjármagnaði kaupin. Hann hafi hins vegar ekki vitað um félagið Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, en félagið tók lán fyrir helmingi viðskiptanna. Lánveitingin til Gerlands hafi aldrei komið fyrir lánanefnd Kaupþings, þar sem Sigurður var formaður. Hann segir óljóst hvers vegna lánveitingin hafi ekki verið lögð fyrir lánanefndina, en sennilega hafi þeir starfsmenn sem leggja áttu lánsbeiðnina fyrir nefndina gert mistök.