Matsfyrirtækið Moody´s tilkynnti í kvöld að það hefði lækkað lánshæfismat Spánar. Lækkar einkunn landsins um þrjá flokka, úr A3 í Baa3 og útilokaði Moody´s ekki að lækka matið enn frekar. Fyrirtækið lækkaði einnig lánshæfismat Kýpur.

Lánshæfismat Spánar er eftir lækkun aðeins einum flokki hærri en ruslflokkur. Ástæðan er ráðagerð spænsku ríkisstjórnarinnar að taka 100 milljarða evra lán til að bjarga bankakerfi landsins, erfiðleikar við ríkisskuldbréfaútgáfu og veikleika í efnahags landsins.

Moody´s gerir ráð fyrir að skuldir spænska ríkisins verði um 90% af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF) landsins. Það er ekki helsta áhyggjuefni Spánverja heldur veikt bankakerfi. Sérstaklega vegna mikillar afskriftarþarfar vegna fasteignabólu sem myndaðist eftir að landið tók upp evruna, sérstaklega eftir 2005.

Til samanburðar eru skuldir Ítalíu 120% af VÞF. Skuldir gríska ríkisins námu 165% af VÞF í lok ársins 2011.