Lars Christensen, forstöðumaður greiningardeildar Danske Bank, mun á þriðjudag, 12. apríl nk., kynna nýja greiningu bankans á íslensku efnahagslífi. Greiningin verður gefin út sama dag og verður hún fyrst kynnt á fundi VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka,

Í frétt á vef Íslandsbanka segir: „Þetta er í fyrsta sinn í fjögur ár sem Danske Bank vinnur greiningu á Íslensku efnahagslífi. Greining Danske Bank frá árinu 2006, „Iceland, Geyser crisis“  varaði við slæmum horfum hér á landi en hún vakti mikla athygli og hörð viðbrögð hér á landi.“

Haft er eftir Stefáni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs Íslandsbanka að það sé mjög ánægjulegt að  Lars Christensen hafi þegið boð VÍB um að fjalla um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. „Hörð viðbrögð við skýrslu Danske Bank á sínum tíma ættu einmitt að kenna okkur Íslendingum gildi málefnalegra og faglegra skoðanaskipta. Það verður sérlega áhugavert að heyra núverandi skoðun Danske Bank á möguleikum Íslendinga til endurreisnar.”