Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, seldi í dag bréf í Högum fyrir 10 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Hann seldi 250 þúsund hluti á genginu 40,95. Eftir söluna á Lárus 967.586 hluti. Miðað við gengið í dag er markaðsverð þess hlutar tæpum 40 milljónum króna. Aðföng eru dótturfélag Haga og hefur Lárus stöðu fruminnherja hjá félaginu.

Hagar birtu uppgjör fyrir þriðja fjórðung á föstudaginn. Hagnaður á þriðja fjórðungi var um 800 milljónir en hagnaður á fyrstu þremur fjórðungum var hátt í 2,8 milljarðar. Gengi bréfa Haga hækkuðu nokkuð á föstudaginn eftir að uppgjörið hafði verið birt.