kex hostel
kex hostel
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þeir lífeyrissjóðir sem eru hluthafar í BRÚ II og forráðamenn Thule Investments hafa ákveðið að óháður þriðji aðili verði fenginn til að gera úttekt á fjárfestingum Brúar II, framkvæmd þeirra, eftirliti, skattgreiðslum, hæfi stjórnenda, þóknunum og umbunum vegna þeirra efasemda sem fram hafa komið opinberlega.  Niðurstaða þeirrar úttektar verður gerð opinber þegar hún liggur fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Thule Investments. Þar segir að Brú II sjóðurinn, sem Kastljós Ríkissjónvarpsins hefur fjallað um undanfarið, hafi fjárfest bæði hérlendis og erlendis.

Þvert ofan í það sem gefið sé í skyn í Kastljósi lúti Brú II  ströngu aðhaldi fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg, og lúti að fullu nýjum og ítarlegum reglum Evrópusambandsins um framtaksfjárfestingar. Umsjónarbanki félagins, Societe General Bank & Trust S.A., fari með fjármuni hans og bókhald og gefi út verðmat.

„Stjórn ábyrgðaraðilans staðfestir verðmat og ársreikninga. Ströngum alþjóðlegum kröfum er fylgt varðandi hæfni allra stjórnarmanna og stjórnenda. Ársreikningar félagsins eru endurskoðaðir samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS). Fjármunir félagsins eru í vörslu umsjónarbanka sem ber ábyrgð á að fjármunum sé einungis varið í samræmi við samþykktir og samninga sjóðsins. Þóknanir sem sjóðurinn greiðir til ábyrgðaraðila eru reiknaðar af umsjónarbanka og staðfestar af endurskoðanda,“ segir í yfirlýsingu Thule.

Þá segir að skýrar heimildir séu í samningum sjóðsins til stofnunar millifélaga og fyrir því að starfsmenn og/eða Thule investments þiggi stjórnarlaun. Hvorki Brú II eða lífeyrissjóðir hafi fjárfest á Tortola eins og hafi mátt skilja í umfjöllun Kastljóss.