Landssamtök lífeyrissjóða (LSS) birta í dag á vef sínum opið bréf til þingmanna Sjálfstæðisflokksins frá Bjarna Þórðarsyni, tryggingastærðfræðingi.

Í bréfinu mótmælir Bjarni þeim hugmyndum sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram í vikunni um breytingar á skattgreiðslum vegna greiðslna í lífeyrissjóð.

Í tillögu sjálfstæðismanna er lagt til að skattgreiðslur af lífeyrisgreiðslum verði innheimta strax í stað þess að þeim sé frestað þangað til kemur að greiðslu úr sjóðunum. Þannig geti ríkið fengið tekjur upp að allt 40 milljörðum króna árlega.

Bjarni mótmælir þessum hugmyndum og á vef LSS er tekið fram að samtökin taki undir þau sjónarmið sem Bjarni færir fram.

„... þegar skatttekjur framtíðarinnar dragast saman vegna lækkandi skatttekna frá lífeyrisþegunum verður að hækka skattprósentuna, m.a. af skattlögðum lífeyri þeirra sem jafnframt  fá skattfrjálsan lífeyri,“ segir Bjarni í grein sinni.

„En hverjir munu fá mestu hækkunina? Jú, það er unga fólkið sem í dag á hvað erfiðast með lánin sín."

Bjarni segir að lífeyriskerfið hér á landi sé eins sterkt og raun ber vitni vegna þess að hver kynslóð standi undir sínum lífeyri með sparnaði en velti ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og Bjarni segir að flestar þjóðir gera í mjög ríkum mæli.

„Nei, ágætu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, látið núverandi kerfi í friði og veltið ekki meiri skuldbindingum yfir á hina ungu kynslóð. Hennar vandi er nægur nú þegar og ástæðulaust að binda henni þyngri bagga til langrar framtíðar en þörf krefur,“ segir Bjarni í grein sinni.

„Verið þess fullvissir að fjármunir þessir munu í vörzlu lífeyrissjóðanna taka fullan þátt í endurreisn þjóðarhags."

Sjá nánar á vef LSS.