Vörumerki LazyTown (Latibær) er sterkt og tekjur af því standa í dag undir öllum daglegum rekstri fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Latabæ vegnar fréttar Viðskiptablaðsins í morgun um skuldarstöðu félagsins en samkvæmt heimildum blaðsins hyggjast skuldabréfaeigendur stefna Latabæ fyrir dómi til að fá vangoldnar skuldir greiddar.

Í tilkynningu Latabæjar kemur fram að LazyTown þættirnir nái til 500 milljón heimila í 128 löndum og kannanir sýni að persónur þáttana séu vel þekktar meðal barna um heim allan.

„Margt jákvætt er í rekstri LazyTown,“ segir í tilkynningunni.

„Tekjur fyrirtækisins eru af yfir 7.000 ólíkum vörutegundum, dregið hefur verið úr kostnaði og innra skipulag einfaldað. Hins vegar liggur fyrir að samsetning skuldafjármögnunar félagsins stendur áframhaldandi vexti fyrir þrifum. Því hefur verið unnið að því um nokkra hríð í samvinnu við helstu kröfuhafa að endurskipuleggja fjárhag félagsins, með það fyrir augum að tryggja rekstur LazyTown til langs tíma. Þessar viðræður eru í góðum farvegi.“

Þá kemur loks fram að vonir standi til þess að á næsta ári verði fyrirtækið vel í stakk búið til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem búa í vörumerkinu LazyTown.