Greg Abel, stjórnarformaður og forstjóri Berkshire Hathaway Energy, dótturfélags fjárfestingarfélags Warren Buffett, fékk 27,6 milljónir dala í laun, bónus- og hvatagreiðslur í fyrra, en heildargreiðslur til Abel námu 10,7 milljónum dala árið 2013.

Greg Abel.
Greg Abel.

Í frétt Bloomberg kemur fram að regluleg laun Abel hafi numið einni milljón dala, bónusgreiðslur hafi numið 11,5 milljónum og þá hafi hann fengið 12 milljónir dala á grundvelli hvatakerfis sem tekið var upp hjá fyrirtækinu fyrir sex árum. Greiðslur samkvæmt þessu kerfi byggjast á því að fyrirtæki nái fyrirfram ákveðnum hagnaðarmarkmiðum.

Varaformaður stjórnar móðurfélagsins Berkshire Hathaway, Charles Munger, jós Abel hrósi á laugardaginn og hefur það ýtt undir þann orðróm að Abel muni taka við stjórnartaumunum á Berkshire Hathaway þegar Buffett, sem er 84 ára að aldri, dregur sig í hlé.