Laun hafa hækkað um 9% síðastliðið ár. Annað eins launaskrið hefur ekki sést hér á landi síðan í september árið 2008, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunkorni deildarinnar er bent á að hækkun launa síðastliðna tólf mánuði er langt umfram framleiðniaukningu vinnuafls í hagkerfinu og meiri en sést hafi í samkeppnislöndum. Þessi launaþróun hefur knúið verðbólguna upp á síðkastið og er því ein af meginástæðum þess að peningastefnunefnd Seðlabankans hefur sagt sig knúna til að hafa stýrivexti hér hærri en í öðrum löndum.