Einar Gunnarsson, starfsmannastjóri í utanríkisráðuneytinu, segir veikingu íslensku krónunnar að undanförnu ekki gefa tilefni til breytinga á launum þeirra starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem starfa erlendis.

„Laun útsendra starfsmanna eru í íslenskum krónum. Auk þess fá þeir staðaruppbót sem er í mynt starfsríkisins," útskýrir hann.

Laun svonefndra staðarráðinna starfsmanna eru hins vegar í mynt viðkomandi ríkis.

Á launaskrá ráðuneytisins eru um það bil áttatíu svonefndir útsendir starfsmenn. Álíka margir eru staðarráðnir. Alls eru sendiskrifstofurnar þrjátíu, þar af sex á vegum Þróunarsamvinnustofnunar.