Laun og tengd gjöld í Landsbankanum hafa hækkað um 26% frá fyrri árshelmingi ársins 2011. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri sem Landsbankinn birti í dag.

Þar segir að rekstrarkostnaður bankans þyki enn of hár, þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðhaldsaðgerða í rekstrinum. Auk launahækkana hefur rekstrarkostnaður hækkað um 11% á tímabilinu og nam á tímabilinu rúmum tólf milljörðum króna.

Samningsbundnar launahækkanir nema 400 milljónum króna en nýr fjársýsluskattur á laun 350 milljónum króna segir í tilkynningu frá bankanum. Þá nemur kostnaður vegna samruna við Spkef og starfsloka vegna hagræðingaraðgerða 480 milljónum króna.

Auk þessa hefur áætlaður tekju- og bankaskattur hækkað um 22% á milli ára og er nú rúmlega 2,8 milljarðar króna. Á þessum fyrstu sex mánuðum ársins hefur Landsbankinn jafnframt greitt Fjármálaeftirlitinu og embætti Umboðsmann skuldara 290 milljónir króna.