„Þetta er ágreiningur um vinnulaun. Sem betur fer er þetta ekki há upphæð og vonandi næst lending í þessu,“ segir Ingólfur H. Ingólfsson, stjórnarformaður Sparifélagsins, um launadeilu við Hönnu Björk Ragnarsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, sem útilit er fyrir að tekist verði á um fyrir dómi.  Fyrirtaka var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í gær í máli Hönnu Bjarkar gegn Sparifélaginu.

Ingólfur Hrafnkell Ingólfsson
Ingólfur Hrafnkell Ingólfsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Hanna Björk, sem er viðskiptafræðingur að mennt, var ráðin framkvæmdastjóri Sparifélagsins í janúar í fyrra. Félagið hefur stefnt á það síðan þá að stofna nýjan viðskiptabanka byggðan á svipaðri hugmyndafræði stýringar útgjalda og uppbyggingu sparnaðar og eigna og Ingólfur hefur kennt á námskeiðum Fjármála heimilanna. Þegar tilkynnt var um ráðningu Hönnu Bjarkar fyrir rúmu ári var stefnt að því að hefja rekstur bankans síðar sama ár og tilkynnt að framkvæmdastjórinn yrði bankastjóri.

Hanna Björk hætti hjá Sparifélaginu í janúar síðastliðnum og hafði þá unnið í ár að stofnun bankans. Enn bólar ekkert á bankanum.

Nýr framkvæmdastjóri hefur ekki verið ráðinn í stað Hönnu Bjarkar, að sögn Ingólfs.

„Við þurfum ekki framkvæmdastjóri því verkefni Sparifélagsins eru því sem næst komin í höfn,“ segir hann.

Hanna Björk vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær.