Hæstu launagreiðslurnar knattspyrnuheiminum eru á Englandi en þær voru tvöfalt hærri en á Spáni þar sem næsthæstu launin eru greidd. Alla jafna er talað um England, Spán, Þýskaland, Ítalíu og Frakkland sem fimm stærstu deildir Evrópu hvað varðar gæði liðanna. Hið sama á við fjárhagslega, enda er alla jafna sterk fylgni milli launa sem lið greiða og árangurs innan vallar.

Athygli vekur að þar á eftir kemur næstefsta deildin á Englandi sem greiddi sjöttu hæstu launin í evrópskum fótbolta tímabilið 2016/2017. Þá eru laun sem hlutfall af tekjum áberandi hæst í ensku 1. deildinni, eða 99%, sem þýðir að lið verja nær öllum sínum tekjum í laun. Sum eyða meira í laun leikmanna en þau þéna og eru því rekin með tapi, sér í lagi þegar annar kostnaður en laun leikmanna bætist við.

Hátt hlutfall launa af tekjum skýrist einna helst af því að flest liðin eru tilbúin að leggja mikið í sölurnar til að komast upp í ensku úrvalsdeildina og þá digru sjóði sem þar er að finna. Rússland, þar sem nokkur fjöldi íslenskra atvinnumanna er að finna, er í 8. sæti yfir hæstu launin og fengu leikmenn þar ríflega 500 milljónir evra í laun tímabilið 2016/2017. Holland, sem hefur einnig verið vinsæll áfangastaður íslenskra leikmanna í gegnum árin, er þónokkuð á eftir Rússlandi og eru launin þar um helmingi lægri. Þá eru launagreiðslurnar á Norðurlöndunum einnig mun lægri en í stærstu deildunum en launagreiðslurnar í Danmörku námu 110 milljónum evra 2016/2017.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .