Lausafjárstaða lífeyrissjóða er enn mun rýmri en hún var að jafnaði fyrir hrun. Greining Íslandsbanka segir að rúm lausafjárstaða gæti leitt til þess að eignasala sjóðanna samfara auknum erlendum fjárfestingum eftir losun hafta verði mun minni en ella.

Í desember námu sjóðir og bankainnistæður lífeyrissjóða 6,2% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greining Íslandsbanka segir að þetta hlutfall sé mun hærra en það var fyrir hrun þegar hlutfallið var yfirleitt í kringum 2%. Er þetta áhugavert þegar haft er í huga að tryggingarfræðilegt uppgjörsviðmið lífeyrissjóðanna nemur 3,5% raunávöxtun en slík ávöxtun fæst tæpast af lausum innstæðum í dag.

„Af þessu má draga þá ályktun að sjóðirnir sjái ekki arðsöm fjárfestingartækifæri fyrir í kringum 4% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Gnóttstaða sjóðs bendir því síst til þess að sjóðirnir fari sér geyst í óarðsömum fjárfestingum líkt og þeir eru gjarnan sakaðir um,“ segir í Greiningu Íslandsbanka.