Nefnd sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í desember í fyrra hefur lagt fram drög að frumvarpi um stofnun fjármálastöðugleikaráðs . Með frumvarpinu er stefnt að því að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu með því að fela sérstöku fjármálastöðugleikaráði skilgreind verkefni og heimildir í samræmi við evrópskar og aðrar alþjóðlegar fyrirmyndir, tillögur í nýlegum skýrslum um fjármálakerfið,umgjörð fjármálastöðugleika á Íslandi og íslenska lögskipan. Ráðið á að vera vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika auk þess að greina kerfisáhættu og viðbrögð stjórnvalda við óróa á fjármálamörkuðum. Þá á ráðið að samræma viðbúnað við fjármálakreppu.

Drög að frumvarpinu hafa verið lög til umsagnar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Í nefndinni sátu Tryggvi Pálsson, hagfræðingur og nýráðinn formaður bankaráðs Landsbankans en hann var jafnframt formaður nefndarinnar; Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Guðrún F. Þórðardóttir, staðgengill yfirlögfræðings, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands. Varamenn þeirra voru Lilja Sturludóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Valgerður Rún Benediktsdóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ragnar Hafliðason, ráðgjafi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans. Ritari nefndarinnar var Steindór G. Jónsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.