Samtök atvinnulífsins og fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Grindavíkur, hittast hjá ríkissáttasemjara og munu félögin þá veita tilboði SA frá sl. miðvikudag formlegt svar. Fréttastofa RÚV hefur eftir Ragnari Þór Ingólfssyni að tilboð SA hafi verið það fyrsta sem vert hafi verið að skoða nánar og taka afstöðu til.

Í yfirlýsingu frá Eflingu segir að í gagntilboðinu, sem félögin ætli að leggja fram, sé komið til móts við kauphækkunarboð SA, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar.

Félögin fjögur fengu Stefán Ólafsson og Indriða H. Þorláksson til að setja saman tillögur um skattabreytingar í þá veru að tekjuskattar á 90% almennings lækki en tekjuhæstu 5% muni greiða hærri skatt. Í yfirlýsingu Eflingar er þess krafist að skattabreytingarnar verði lögfestar í næstu fjárlögum.