Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í júlí í fyrsta skipti í rúm tvö ár. Þá voru tölur nokkra síðastliðna mánuði endurskoðaðar uppávið. Miðað við að hagvísirinn hafi forspárgildi um vendipunkta um sex til níu mánuði hafa líkur aukist á viðsnúningi til aukinnar landsframleiðslu snemma á næsta ári.

Tveir af sex undirliðum hækka frá í júlí en mest framlag til hækkunar hefur aukin debetkortavelta. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta hefur verið sterk en í bráð hefur langtímaleitnin minna að segja. Sérstök óvissa er áfram tengd ferðaþjónustu og lamandi áhrifum COVID-19 farsóttarinnar á efnahagslíf og uppnám á vettvangi alþjóðastjórnmála tengt henni.

Leiðandi hagvísirinn hækkar um 0,1% í júlí og tekur gildið 94,3. Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar, þ.e. í janúar 2021. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf til að mynda að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í júlí hækka tveir af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá í júní hækka einnig tveir af sex undirþáttum. Tölur sem liggja til grundvallar hagvísinum ná fram í júlí.