Hermann Björnsson er á sínu þriðja ári sem forstjóri Sjóvár en hann tók við eftir að hópur fjárfesta keypti hlut ríkisins í félaginu. Nú er félagið á leið á hlutabréfamarkað og verður Sjóvá þriðja tryggingafélagið á aðallista Kauphallarinnar.

Þegar litið er yfir síðustu ár í rekstri Sjóvár þá segir Hermann nokkra hluti gera það að verkum að félagið sé tilbúið til að fara inn á markað. Fyrir það fyrsta hafi það reynst félaginu vel að fá inn fjárfesta sem litu á sig sem langtímafjárfesta með þá stefnu að skrá félagið á markað. Sú staðreynd að eigendur hafi ekki greitt sér út arð úr félaginu hafi einnig styrkt grundvöll félagsins. Að auki hefur rekstur félagsins gengið vel að undanförnu og skilað góðum hagnaði.

„Allur hagnaður hefur verið nýttur í að styrkja félagið, bæði í fjárfestingarhlutanum og í öllum innviðum. Viðleitnin hefur verið í þá átt að gera félagið vel í stakk búið til að fara á markað,“ segir Hermann sem telur tryggingafélög henta vel á skráðum markaði þar sem þau séu alla jafn góð arðgreiðslufélög og sveiflur í rekstri séu yfirleitt ekki miklar.