Leiðtogar Evrópusambandsins hittast í Brussel núna í vikunni. Dagskrá fundarins mun einkennast af nýjum ásökunum um að bandarísk stjórnvöld hafi stundað umfangsmiklar hleranir í Evrópu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hringdi í gær í Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, eftir að upplýsingar bárust um að Bandaríkjamenn hefðu hlerað farsíma hennar. Þá hefur utanríkisráðherra Þýskalands kallað bandaríska sendiherrann í Þýskalandi á sinn fund vegna málsins.

Francois Hollande, forseti Frakklands, krefst þess að málið verði rætt en grunur leikur á að milljónir símtala á milli Frakka hafi verið hleruð.

Hleranirnar verða þó ekki eina umræðuefnið á dagskrá því einnig verður rætt um efnahagsmál í álfunni og innflytjendamál.

BBC greindi frá málinu.