Íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir að allt að 2.300 leiguíbúðir eða svokölluð leiguheimili verði byggð á næstu fjórum árum í nýja almenna íbúðakerfinu, að hámarki 600 íbúðir á ári. Markmið verkefnisins er að auka framboð hagkvæmra og ódýrra leiguíbúða og þar með létta á verðþrýstingi á leigumarkaði. Það á að tryggja tekju- og eignaminni einstaklingum og fjölskyldum þak yfir höfuðið til lengri tíma á viðráðanlegu verði með húsnæðiskostnaði sem er í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Leiguheimilin verða fjármögnuð með 30% stofnframlagi ríkis (18%) og sveitarfélaga (12%) og verða 20-30% ódýrari en leiguíbúðir á almennum markaði. Verkefnið kallar á stóraukin fjárframlög ríkis og sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir 1,5 milljarða kr. framlagi til slíkra stofnframlaga á þessu ári og er það ígildi eigin fjár.

Íbúðalánasjóði er falið að veita stofnframlögin fyrir hönd ríkisins.Húsnæðissjálfseignarstofnanir, sveitarfélög og lögaðilar í eigu þeirra, og lögaðilar sem uppfylla skilyrði til að fá félagsleg leiguíbúðalán hjá Íbúðalánasjóði, geta fengið stofnframlög, byggt leiguheimilin og leigt þau út til lengri tíma litið. Bæði ríki og sveitarfélög hafa heimild til að setja það sem skilyrði að stofnframlagið verði endurgreitt þegar lán, sem tekin voru til að standa undir fjármögnun íbúðanna, hafa verið greidd upp.

Stofnframlögin gera það að verkum að aðeins þurfi að fjármagna 56-70% af byggingarkostnaði í upphafi. Lögð verður áherslu á hagkvæmar aðferðir við íbúðabyggingar til að lækka byggingarkostnað. Breytingar sem hafa verið gerðar á byggingarreglugerð eiga að liðka fyrir byggingu lítilla íbúða og smá- hýsa og stuðla að lækkun byggingarkostnaðar. Hærri húsnæðisbætur styðja almennan leigumarkað og húsnæðissjálfseignarstofnanir eru undanþegnar tekjuskatti. Allt á þetta að stuðla að lægra leiguverði íbúðanna.

Biðlistar ráða úthlutun

Markhópur verkefnisins er fólk með og undir meðaltekjur – námsmenn, ungt fólk, aldraðir, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Árstekjur leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 4.749.000 kr. fyrir hvern einstakling (395.750 kr. á mánuði) en 6.649.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk (554.083 kr. á mánuði). Við þá fjárhæð bætast 1.187.000 kr. (98.917 kr. á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Ný tekjumörk verða gefin út árlega.

Árlegar meðaltekjur á Íslandi árið 2014 voru um 4,5 milljónir. Hópurinn sem fellur innan tekjumarkanna er talsvert stærri en sá hópur sem fær að búa í niðurgreiddu leiguíbúðunum.

Hvernig á þá að úthluta leiguheimilunum? Samkvæmt reglugerð um almennar íbúðir skal að jafnaði fara eftir því hversu lengi umsækjandi hefur verið á biðlista hjá viðkomandi aðila eftir íbúð. Eiganda er þó jafnframt heimilt að setja reglur um forgangsrétt til leigu, svo sem vegna fjölskyldustærðar, fjárhagsstöðu eða félagslegra aðstæðna umsækjanda.

Það er því í höndum hvers og eins eiganda almennrar íbúðar að ákveða hvernig hann úthlutar íbúð- um innan þess ramma sem lögin setja. Íbúðalánasjóður mun svo hafa eftirlit með því að íbúðunum sé úthlutað í samræmi við ákvæði laga um almennar íbúða. Ef ekki tekst að leigja íbúð til efnaminni leigjanda er eiganda almennrar íbúðar heimilt að leigja hana einstaklingi sem er yfir tekju- og eignamörkunum til allt að eins árs.

Óheimilt verður að framleigja leiguheimili eða hluta þess nema með samþykki eiganda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.