Fjármálaráðherra hefur skipað sérstaka valnefnd til að yfirfara stöðu þeirra stofnana sem gætu uppfyllt skilyrði til að hljóta nafnbótina “fyrirmyndarstofnun ríkisins 2008”. Um er að ræða viðurkenningu til ríkisstofnunar sem „skarað hefur fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu,” eins og segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Fjármálaráðherra hefur sex sinnum áður, annað hvort ár frá árinu 1996, veitt sambærilega viðurkenningu. Á meðal þeirra fyrirtækja sem fengið hafa hana má nefna ÁTVR, Orkustofnun og Landgræðslu ríkisins. Við mat á stofnunum er fyrst og fremst horft til stjórnunar þeirra og hver markmið þeirra eru og hvaða aðferðir eru viðhafðar við stjórnun.