Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) felldi nýverið úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að fjarlægja þrjár bifreiðar af einkalóðum í Sandgerði.

Að mati eftirlitsins fólst mengunarhætta í bifreiðunum og voru þær að lokum fluttar til Reykjavíkur til förgunar. Í kærum sagði að ákvarðanirnar virtust „einungis hafa byggst á persónulegu mati starfsmanns eftirlitsins“ og að í rökstuðningi fyrir þeim hefðu engar ástæður verið tilgreindar en að bifreiðarnar hefðu verið á „almannafæri“.

Að mati ÚUA hafði eftirlitið ekki reynt nægilega að ná í eigendur þeirra og þar með ekki uppfyllt rannsóknar- og andmælaskyldu sína. Ákvarðanirnar voru því felldar úr gildi.