Lettland hefur formlega óskað eftir inngöngu í evrusvæðið árið 2014 og ef það gengur eftir verða evrulöndin því átján talsins. Í frétt BBC segir að umsóknin komi ekki á óvart, enda uppfylli Lettland nú allar formleg skilyrði fyrir inngöngu.

Hrunið 2008 lét Lettland mjög grátt, en mjög umfangsmikill niðurskurður í opinberum útgjöldum hjálpaði hagkerfinu til að komast aftur í gang og nú er hagvöxtur í Lettlandi meiri en í flestum öðrum Evrópusambandsríkjum.

Framkvæmdastjórn ESB og evrópski seðlabankinn munu að öllum líkindum taka ákvörðun um inngöngu Lettlands í júní. Latið, gjaldmiðill Lettlands, hefur verið hengt við gengi evrunnar frá árinu 2005 og segir forsætisráðherrann Valdis Dombrovskis að upptaka evrunnar sé eðlilegt næsta skref. Skoðanakannanir benda hins vegar til að um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar séu andvíg upptöku evru.