Nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið hefur verið samþykkt af öllum sveitarfélögum á svæðinu og staðfest af Skipulagsstofnun. Nýja skipulagið kveður á um miklar breytingar í byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu samhliða uppbyggingu nýs kerfis lesta eða hraðvagna, svokallaðrar Borgarlínu. Í skipulaginu er sett fram það markmið að hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu verði 12% árið 2040.

Nýtt svæðisskipulag hefur verið í vinnslu síðan árið 2012, en um er að ræða samþykkt sem mótar aðalskipulagsvinnu sveitarfélaganna á svæðinu. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu standa nú fyrir blaðamannafundi í Höfða um nýja skipulagið.

Miðstöðin verði hjá BSÍ

Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ein stærsta breytingin í nýja skipulaginu felist í hinu nýja kerfi almenningssamgangna, Borgarlínunni. Auk þess leggi nýja skipulagið aukna áherslu á þéttingu byggðar og samþættingu samgangna og byggðar.

„Þetta verður léttlest eða það sem er kallað hraðvagnakerfi,“ segir Hrafnkell spurður um eðli Borgarlínunnar. „Í sjálfu sér er virknin alveg sú sama. Virkni [hraðvagna] er eins og um lest sé að ræða; keyrir í sérrými, getur flutt fullt af farþegum, stoppistöðvarnar eru brautarpallar þar sem er gengið inn um allar dyr. Þannig að þetta er mjög afkastamikið kerfi og skjótvirkt.“

Hrafnkell segir að ekki sé búið að ákveða hvar línur kerfisins liggja en að þær muni þó liggja milli kjarna á höfuðborgarsvæðinu. Miðstöð kerfisins verði líklega hjá BSÍ í Vatnsmýri. Næsta skref í verkefninu verði að negla alveg niður hvar leiðirnar liggja. Það eigi að vera klárt í lok næsta árs.

Hrafnkell staðfestir að ákvörðun hafi verið tekin um ráðast í verkefnið. Hann bendir þó á að ekkert sé í hendi varðandi tímasetningar í því samhengi.

Kostnaðurinn hleypur á milljörðum

Verkfræðistofan Mannvit gerði skýrslu fyrir Vegagerðina árið 2012 þar sem meðal annars var lagt mat á kostnaðinn við uppbyggingu hraðvagnakerfis. Kostnaðurinn var metinn 1000 milljónir króna á kílómetra, miðað við tvær akreinar og fullan aðskilnað frá annarri umferð. Í skýrslunni segir að hraðvagnakerfi séu ódýr miðað við önnur kerfi með sama þjónustustig. Stofnkostnaður hraðvagnaleiðar milli BSÍ og Fjarðar í Hafnarfirði var metinn 6-7 milljarðar króna, miðað við verðlag og gengi á þeim tíma sem skýrslan var unnin.

Aðspurður segir Hrafnkell að verið sé að skoða tvær leiðir varðandi fjármögnun Borgarlínunnar. Annars vegar sé um að ræða opinbera fjármögnun, og hins vegar samstarf hins opinbera og einkaaðila. „Það eru mörg vel heppnuð kerfi sem eru þannig rekin, í Kanada og í Bandaríkjunum,“ segir Hrafnkell um síðarnefndu fjármögnunarleiðina. „Og Finnar hafa til að mynda verið að horfa á þann veg, að hafa þá samstarf við þróunaraðila sem sjá þá hag í að byggja upp meðfram línunni.“