*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 19. nóvember 2018 13:42

Leyndi tekjum fyrir um 5 milljarða

Carlos Ghosn, sem leitt hefur bandalag Nissan, Mitsubishi og Renault, hefur verið handtekinn og sakaður um misferli.

Ritstjórn
Carlos Ghosn hefur verið stjórnarformaður bæði Nissan og Mitsubishi ásamt því að vera forstjóri Renault.

Stjórnarformaður japönsku bílaframleiðandanna Nissan og Mitsubishi, sem jafnframt er forstjóri frönsku Renault bílaverksmiðjunnar, hefur verið handtekinn í Japan.

Hyggst Nissan bílaframleiðandinn reka hann úr stjórnarformannsstöðunni í kjölfar ásakana á hendur honum um að hafa ekki gefið upp allar tekjur sínar af stjórn fyrirtækjanna.

Er maðurinn sem þekktur hefur verið fyrir að snúa við rekstri bílafyrirtækja með röggsömum niðurskurði sakaður um að hafa ekki gefið upp laun að andvirði 5 milljarða japanskra jena, eða sem nemur 5,4 milljörðum íslenskra króna.

Bjargaði Nissan frá gjaldþroti

Er handtakan talin líkleg til að sprengja í sundur bandalag bílaframleiðandanna þriggja að mati WSJ. Renault á 43% hlut í Nissan, en Nissan á aftur 15% í Renault, sem kom til eftir að Renault kom fyrrnefnda félaginu til bjargar þegar það stóð frammi fyrir gjaldþroti.

Eftir niðurskurð og aðrar aðgerðir Ghosn er Nissan nú það fyrirtæki í bandalaginu sem skilar mestum hagnaði, en félagið bætti við sig 34% hlut í Mitsubishi árið 2016.

Markaðsvirðið lækkað um 300 milljarða

Handtakan var gerð eftir að markaðir lokuðu í Japan en gengi Renault hefur lækkað um 9,18% síðan fréttirnar bárust. Það þýðir að markaðsvirði félagsins hefur lækkað um sem nemur 2 milljörðum evra, eða sem samsvarar 282 milljörðum íslenskra króna.

Heildartekjur Ghosn á síðasta ári námu 962 milljónum japanskra jena, fyrir störf sín fyrir Nissan og Mitsubishi en að auki fékk hann 7,4 milljónir evra frá Renault að því er fram kom í skýrslum fyrirtækjanna.

Samanlagt samsvara uppgefnu tekjurnar sem bæði komu fram í beinhörðum launum og hlutafé því um 2,1 milljarði íslenskra króna. Ef ásakanirnar eru réttar lét hann ekki vita af tekjum sem voru ríflega tvöfalt meiri en það frá fyrirtækjunum.

Stikkorð: Japan Mitsubishi Nissan Carlos Ghosn Renault