Íbúðalánasjóður getur ekki boðið upp á óverðtryggð lán fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár,“ segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, en að undanförnu hefur umræða um lánveitingar sjóðsins á óverðtryggðum lánum komist í hámæli og hefur hún m.a. farið fram í þingnefndum. Lagasetningu þarf til þess að Íbúðalánasjóður geti veitt óverðtryggð lán og liggur frumvarp þess efnis fyrir Alþingi. Þess má geta að Sigurður hefur áður, m.a. í viðtali við Viðskiptablaðið, lýst þeirri skoðun sinni að það sé óhjákvæmileg þróun að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð lán.

Sigurður segir að áður en sjóðurinn geti farið að bjóða upp á slík lán þurfi að leysa ýmsa hnúta og nefnir hann í því samhengi meðal annars að búa þurfi til nýjan óverðtryggðan skuldabréfaflokk til fjármögnunar hinna óverðtryggðu lána. „Við þurfum að leysa þessa fjármögnun á markaði með tilliti til þess misræmis sem er á milli óverðtryggðra skammtímalána annars vegar og veitingu langtíma húsnæðislána hins vegar,“ segir Sigurður. Hann bætir því við að sömuleiðis þurfi að finna hvaða lánaform og skilmálar henti best því að hans mati séu breytilegir vextir ekki hentugir. Þeir vextir eigi til að hækka verulega sem valdi greiðsluvanda og því meti hann það svo að veiting slíkra lána þjóni ekki hagsmunum neytenda.

Uppgreiðsluáhætta

Þá segir Sigurður Íbúðalánasjóð búa við talsverða uppgreiðsluáhættu sem verði að leysa áður en farið er að bjóða óverðtryggð lán. Fari svo að verðtryggð lán verði greidd upp í stórum stíl til þess að lánþegar geti tekið óverðtryggð lán muni sjóðurinn lenda í svipaðri stöðu og árið 2004.

Að lokum segir hann að ekki sé endilega víst að vilji sé á meðal fjárfesta til þess að fjármagna óverðtryggð lán Íbúðalánasjóðs. Í því samhengi ber hæst að nefna lífeyrissjóðina en þeir standa fyrir meira en 60% af fjármögnun ÍLS. Vegna 3,5% raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna er alls ekki víst að þeir muni sætta sig við að veita Íbúðalánasjóði óverðtryggð lán til lengri tíma.

Eyglóarnefnd og Arion banki

Svokölluð Eyglóarnefnd, þingnefnd um verðtryggingu undir formennsku Eyglóar Harðardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, komst fyrr á árinu að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að draga úr vægi verðtryggingar í hagkerfinu og að mikilvægur liður í því væri aukið framboð óverðtryggðra íbúðalána. Þar sem Íbúðalánasjóður er langstærsti lánveitandi til íbúðakaupa á landinu verður það óneitanlega að teljast eðlilegt fyrsta skref í þá átt að sjóðurinn bjóði óverðtryggð lán enda mælir nefndin með því.

Umræðan um verðtryggingu hefur einnig verið hávær, m.a. fyrir tilstilli Hagsmunasamtaka heimilanna, og hefur hún m.a. náð inn á Alþingi. Þannig hefur félagsmálanefnd mælt með því að frumvarp sem heimilar ÍLS að veita óverðtryggð lán verði samþykkt. Þá hefur Arion banki tilkynnt að framvegis verði boðið upp á óverðtryggð lán til 25 og 40 ára.