Samtök 64 lífeyrissjóða opinberra starfsmanna í Bretlandi, LAPFF, hafa krafist þess að John Sunderland, formaður kjaranefndar stjórnar Barclays bankans, segi af sér fyrir aðalfund bankans sem haldinn verður í apríl. Heldur LAPFF því fram að Barclays hafi villt um fyrir hluthöfum þegar sagt var fyrir aðalfundinn 2014 að Sunderland myndi stíga til hliðar og Crawford Gillies myndi taka við af honum. Nú, ellefu mánuðum síðar er Sunderland enn formaður nefndarinnar.

Á aðalfundinum í fyrra var stjórn Barclays harðlega gagnrýnd af hluthöfum fyrir launamál í bankanum, en mörgum hluthafanum þótti bónusgreiðslur of rausnarlegar. Beindist gagnrýnin því að kjaranefndinni almennt og Sunderland sérstaklega, að því er segir í frétt BBC.

Í yfirlýsingu LAPFF segir að Sunderland hafi klúðrað launamálum bankans fyrir árið 2013 og að í fyrra hafi launakjör verið of rausnarleg í bankanum. Þá hafi stuðningur hans við fyrrverandi forstjóra bankans, Bob Diamond, haft skelfileg áhrif á arðsemi hlutabréfa í bankanum og á orðspor bankans.