Evrópskir lífeyrissjóðir beita sér nú fyrir því að japanski bílaframleiðandinn Toyota leggi allt undir þegar kemur að rafbílavæðingu. „Grænir áhrifafjárfestar“ búa sig undir átök á aðalfundi Toyota í vikunni samkvæmt frétt Financial Times.

Toyota þótti um tíma leiðandi í grænni tækni í bílaiðnaðinum með því að fara með hybrid-bílinn Prius á markað árið 1997. Japanski bílaframleiðandinn hefur hins vegar ekki viljað fara jafnhratt í rafvæðingu líkt og mörg önnur stórfyrirtæki á þessum markaði.

Toyota hótaði á sínum tíma að stöðva fjárfestingu í verksmiðju sinni í Bretlandi, þar sem 80% af framleiðslunni nær til hybrid-bíla, ef tæknin yrði bönnuð í sölu þar í landi. Fyrirtækið stóð einnig með Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, þegar hann reyndi að vinda ofan af stöðlum um sparneytni bíla. Þá setti Akio Toyoda, forseti Toyota sem leiðir jafnframt hagsmunasamtök japanska bílaiðnaðarins, spurningarmerki á ákvörðun stjórnvalda þar í landi að banna bensínbíla frá og með árinu 2035.

Þrír evrópskir lífeyrissjóðir; AP7, stærsti lífeyrissjóður Svíþjóðar, danski AkademikerPension og lífeyrissjóður ensku biskupakirkjunnar hafa gagnrýnt stefnu Toyota í þessum málum. Samanlagt áttu þeir 300 milljóna dala hlut í Toyota í lok síðasta árs eða sem nemur 40 milljörðum króna.

„Toyota er að stofna í hættu verðmæta vörumerki sínu með því að beita sér gegn mjög þarfri umhverfistengdri reglugerð í bílaiðnaðinum,“ hefur FT eftir Anders Schelde. sjóðstjóra AkademikerPension. Schelde segir að Toyota þurfi að reiða fram vísindaleg rök fyrir afstöðu sinni fyrst þeir séu að „ganga gegn mati flestra sérfræðinga“ um hlutverk rafknúinna bifreiða í orkuskiptum.

Danski lífeyrissjóðurinn lagði fram tillögu fyrir aðalfundinn um endurskoðun á afstöðu Toyota í þessum málum en henni var hafnað þar sem henni var skilað inn degi of seint. Þess í stað hyggst AkademikerPension spyrja bílaframleiðandann hvort hann muni grípa til aðgerða til að draga úr orðsporsáhættu, m.a. með því að tjá sig ekki opinberlega gegn rafvæðingu í bílaiðnaðinum.

Toyota með minnsta útblástur á hvern bíl

Hybrid-kerfi Toyota er ástæðan fyrir því að bílaframleiðandinn er að meðaltali með minnsta útblástur á hvern bíl, þrátt fyrir að hafa ekki selt einn einasta hreina rafbíl fyrr en í ár. Fyrirtækið hefur lengi varað við því að hröð rafvæðing geti haft í för með sér aukna mengun ef stór hluti raforkunnar sem bílarnir ganga á er framleidd með óhreinni orku.

Sjá einnig: Hreint rafmagn forsenda fyrir rafvæðingu

„Ég átta mig ekki á því hvernig þetta á að ganga upp til lengri tíma, vegna þess að það eru ekki allir markaðir með aðgang að umhverfisvænu rafmagni, þetta er ekki eins einfalt og af er látið. Það er mjög áhugavert að skoða útblásturstölur í Evrópu, en þar er Toyota að meðaltali með langminnsta útblásturinn á hvern bíl. Það er ekki vegna þess að Toyota sé með svo mikið af rafmagns- eða tengiltvinnbílum. Það er vegna þess að hybrid-kerfi Toyota eru orðin svo öflug og hafa dregið mjög mikið úr útblæstri, auk þess sem bensín- og dísilvélar eru farnar að menga mun minna en fyrir 10 eða 15 árum. Þannig að umræðan og áherslan er í dálítið þröngu samhengi,“ sagði Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, við Viðskiptablaðið á síðasta ári.

Umhverfishópar og grænir áhrifafjárfestar halda því hins vegar fram að bílaiðnaðurinn þurfi að taka skrefið til fulls og leggja höfuðáherslu á rafbíla. Þeir saka Toyota um að kaupa sér tíma í millitíðinni.