Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð á milli Reita fasteignafélags og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis-lífeyrissjóðs og Eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka, sem meðal annars er með eignir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna í stýringu, um aðkomu þeirra að félaginu.

Í viljayfirlýsingunni er kveðið á um kaup þessara aðila á nýju hlutafé í Reitum fasteignafélagi að fjárhæð 12 ma.kr. og nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki að fjárhæð 25 ma.kr. útgefnum af félaginu. Kjör hlutafjáraukningarinnar miðast við að tekjuberandi fjárfestingaeignir Reita fasteignafélags séu metnar á 7,0% verðtryggðri ávöxtunarkröfu og skuldabréfin verða seld á 4,0% verðtryggðri ávöxtunarkröfu. H.F. Verðbréf var ráðgjafi lífeyrissjóðanna í samningaviðræðunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reitum.

Jafnframt hafa Reitir fasteignafélag náð samningum við Íslandsbanka um allt að 14 ma.kr. lánveitingu til félagsins á umtalsvert hagstæðari kjörum en núverandi fjármögnun. Framangreind endurfjármögnun félagsins er háð viðunandi niðurstöðu í málefnum Reita fasteignafélags, Seðlabanka Íslands og Hypothekenbank Frankfurt AG um lánveitingu þess síðastnefnda til félagsins í erlendri mynt. Þá er fyrirvari gerður við skjalagerð vegna útgáfu skuldabréfanna og lánveitingarinnar, endanlega niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á félaginu og samþykki stjórna lífeyrissjóðanna sem og hluthafa og stjórnar Reita.