Árið 2011 var rekstrarkostnaður innlendra lífeyrissjóða 0,3% af meðaleignum. Samanburður við önnur lönd sýnir að rekstur íslensku sjóðanna er með lægsta móti og var kostnaðurinn aðeins lægri í þremur löndum, að því er segir í tilkynningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða.

Samtökin kynntu nýlega hagtölur lífeyrissjóðanna, en þær á að birta árlega og eiga að veita heildarmynd af meginþáttum lífeyriskerfisins og þróun þess.

Þar kemur m.a. fram að hrein raunávöxtun sjóðanna á árunum 1997-2011 var 3,1%, en markmið þeirra er að ná 3,5% meðalávöxtun á ári til lengri tíma. Í tilkynningunni segir að sjóðirnir séu nú að gera upp árið 2012 og að vísbendingar séu um að raunávöxtun sjóðanna hafi verið góð á árinu og yfir langtíma¬meðaltalinu.

Á árunum 1998-2012 fimmfölduðust eignir lífeyrissjóðanna og jukust úr 407 milljörðum í 2.098 milljarða. Þessi aukning jafngildir því að eignir lífeyrissjóðanna hafi vaxið um 14,6% á ári, en hafa ber í huga að þar er um nafnvöxt að ræða.

Í árslok 2011 voru eignir lífeyrissjóða á Íslandi 128,7% af landsframleiðslu og var Ísland í öðru sæti af löndum innan OECD. Meðaltalið innan OECD landanna er 33,9%. Nýlegar tölur frá Seðlabanka Íslands benda til þess að eignir íslensku lífeyrissjóðanna séu um 140% af landsframleiðslu miðað við árslok 2012.

Á árunum 1998-2012 sexfölduðust lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna og jukust úr 12,6 milljörðum árið 1998 í 79 milljarða árið 2011. Ellilífeyrir lífeyrissjóða vegur þyngst í eftirlaunagreiðslum til landsmanna. Árið 1998 voru ellilífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða 73% af ellilífeyri almannatrygginga en árið 2011 var hlutfallið 143%.