Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 2.238 milljörðum króna í lok apríl. Þetta er 21,3 milljörðum meira en í mars og jafngildir hækkunin 1% á milli mánaða.

Af einstökum liðum hækkaði innlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna um tæpa 18 milljarða króna. Eign þeirra í verðbréfum nemur 1.616 milljörðum króna. Þá hækkaði innlend hlutabréfaeign þeirra um 3,7 milljarða króna. á móti lækkaði erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna um 5,5 milljarða króna á milli mánaða frá mars. Erlend staða sjóðanna nam 515,5 milljörðum króna í apríl.

Eignir lífeyrissjóðanna hafa aldrei verið meiri en núi. Eignasafnið féll um 12% á milli mánaða í október 2008 þegar bankarnir fóru á hliðina og fóru eignir lífeyrissjóðanna þá niður í tæpa 1.554 milljarða króna. Í febrúar 2009 voru eignir lífeyrissjóðanna komnar niður í 1.541 milljarð króna. Síðan þá - á rúmum þremur árum - hefur hrein eign lífeyrissjóðanna aukist um 45%

Eignir lífeyrissjóðanna síðastliðin tvö ár. Heimild / Seðlabanki Íslands
Eignir lífeyrissjóðanna síðastliðin tvö ár. Heimild / Seðlabanki Íslands
Hér má sjá þróun á hreinni eign lífeyrissjóðanna síðastliðin tvö ár. Mynd / Seðlabanki Íslands.