Lífeyrissjóðunum ber skylda til að fjárfesta á erlendri grundu til að koma í veg fyrir að frjósemissveiflur hjá þjóðinni valdi truflunum á fjárfestingu og til að viðhalda jafnvægi á gjaldeyrismarkaði, að sögn Ásgeirs Jónssonar hagfræðings. Kemur þetta fram í erindi sem hann hélt í dag á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða.

Bendir Ásgeir á að lífeyrissjóðakerfið byggi á því að fyrsta hluta ævinnar eyði fólk fé frekar en spari. Þegar það sé á vinnumarkaði leggi það fyrir fé og þegar það er komið á eftirlaun gangi það á þennan sparnað. Þetta þýði að stærð kynslóða skipti máli í lokuðu hagkerfi. Mjög stór kynslóð auki mjög sparnað í hagkerfinu þegar hún kemur á vinnumarkaðinn, sem leiði til lægri vaxta, aukinnar fjárfestingar og hækkandi eignaverðs. Þegar þessi kynslóð fer á eftirlaun minnkar sparnaður, vextir hækka, fjárfesting minnkar og eignaverð lækkar.

Gríðarlega óhagkvæmt sé að láta sveiflur í frjósemi stjórna framboði af fjármagni og þannig hagkvæmni fjárfestinga, viðskiptajöfnuði og jafnframt gengi gjaldmiðilsins. Lífeyrissjóðum í litlum opnum hagkerfum beri því beinlínis skylda til þess að fjárfesta utan síns hagkerfis til að viðhalda efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika að mati Ásgeirs.