Lífeyrissjóður suðurkóreska hersins lýsti því yfir í dag að hann íhugaði að taka þátt í mögulegu tilboði hins ríkisrekna Þróunarbanka Kóreu (KDB) í bandaríska fjárfestingabankann Lehman Brothers.

Sem kunnugt er þá hefur staða Lehman Brothers veikst feikilega undanfarna tólf mánuði og hefur bankinn þurft að afskrifa gríðarlega háar upphæðir vegna hrunsins á markaðnum með undirmálslán í fyrra og lánsfjárkreppunnar sem skall á í kjölfarið.

Haldið hefur verið fram að Lehman hafi verið á barmi gjaldþrots þegar björgunaraðgerðir bandaríska seðlabankans vegna stöðu mála hjá Bear Stearns hófust í síðastliðin mars.

Á þriðjudag staðfestu forráðamenn KDB þrálátan orðróm um að þeir væru í viðræðum við mögulega fjárfestingu í Lehman Brothers.

Fram kemur á vef Financial Times í dag að lífeyrissjóður suðurkóreska hersins hafi ekki fengið tilboð frá KDB um að taka þátt í mögulegri fjárfestingu. Fullyrt hefur verið að KDB leiti sér að samstarfsaðilum um tilboð í Lehman Brothers en enn er óljóst hvernig viðskiptin yrðu útfærð: Rætt hefur verið um beina fjárfestingu í hlutabréfum samhliða þátttöku í útboði á nýju hlutafé.

Fram kemur í breska blaðið Financial Times kanna stjórnendur Lehman Brothers leiða hvernig bankinn geti sér aukið fé áður en að næsta uppgjör hans verður kynnt í lok þessa mánaðar.

Sérfræðingar telja að bankinn muni afskrifa fjóra milljarða Bandaríkjadala til viðbótar við það sem hefur áður verið fært inn á afskriftarreikning. Hinsvegar hefur Financial Times hefur heimildarmönnum að afskriftirnar muni verða enn meiri.

Einn af þeim möguleikum sem hefur verið nefndur er hugsanlega sala á hluta af fjárfestingabankastarfsemi Lehman Brothers. Samkvæmt The Daily Telepgraph þá hefur einkafjárfestingasjóðurinn KKR sýnt áhuga á kaupum á starfseminni, en undir hennar hatti eru vogunarsjóðir, starfsemi í tengslum við einkafjárfestingasjóða og rekstur Neuberger Bergman.

Hinsvegar kunna fréttir á þriðjudag um að vogunarsjóður, sem Lehman Brothers á fimmtungshluta í, hafi verið lokað minnka líkurnar á slíkum viðskiptum að sögn The Telegraph. Um er að ræða hrávöruvogunarsjóð sem er rekin af Ospraie Management en ákveðið var að leysa sjóðinn upp eftir að verðmæti hans féll um 26,7% í ágústmánuði.

Þrátt fyrir þetta hafa væntingar um að Lehman Brothers fái fjármagnsinnspýtingu á næstunni orðið til þess að gengi hlutabréfa bankans hafa hækkað að undanförnu. Gengi bréfa bankans var tæplega 16,50 dalir í viðskiptum í dag en hæsta og lægsta gildi þeirra síðustu 12 mánuði er 67,73 dalir og 12,02 dalir.

Sem kunnugt er hafa fjármálafyrirtæki á Vesturlöndum freistað að styrkja fjárhagsstöðu sína eftir að lausafjárþurrðin skall á með því að sækjast eftir aðkomu og fjárfestingu ýmissa ríkisfjárfestingasjóða í Miðausturlöndum og Asíu.

Eðli málsins kunna slíkar fjárfestingar verið pólitískt viðkvæmar þar sem að sumir hafa áhyggjur og efasemdir um að stjórnendum slíkra opinberra sjóða sé umhugað um það eitt að ávaxta pund sitt.

Reyndar hafa efasemdarraddirnar að mestu fagnað eftir því sem lánsfjárkreppan hefur orðið djúpstæðari en fjárfesting sjóðs á vegum erlends hers kann að verða til þess að rómur þeirra hækki á ný.