Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað haustið 2006 en þá höfðu um 900 störf verið lögð niður eftir að herinn fór og gamla varnarsvæðið breyst í hálfgerðan draugabæ. Hvert sem litið var mátti sjá ljóslausa glugga og auð bílastæði. Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, segir að þessi sjón hafi hreinlega kallaði eftir aðgerðum til að koma í veg fyrir að þessi mannvirki, sem áður hýstu ellefta stærsta sveitarfélag landsins, skemmdust.

„Eftir að Þróunarfélagið var stofnað var farið í ítarlega þarfagreiningu sem síðan var fylgt eftir með markaðsherferð til að kynna svæðið og möguleika þess. Viðbrögðin létu ekki á sér standa þrátt fyrir skiptar skoðanir um möguleika svæðisins til að ganga í endurnýjun lífdaga. Tækifærin voru fjölmörg; þau þurfti að grípa og þróa áfram,“ segir Kjartan.

Þrjú hundruð þúsund fermetrar

Að sögn Kjartans hefur tilgangurinn með stofnun Þróunarfélagsins frá upphafi verið sá að koma gamla varnarsvæðinu í hagfelld borgaraleg not. „Markmiðið er að jákvæð samfélagsleg áhrif verði sem mest og neikvæðum áhrifum á nærsamfélagið sé haldið í lágmarki. Kallað hefur verið eftir hugmyndum um nýtingu svæðisins og þeirra eigna sem þar eru. Byggingar á svæðinu eru frá 150 og upp í 14.000 fermetra og fjölbreytnin er ótrúleg. Þarna eru byggingar sem telja um 300.000 fermetra; skólar, sjúkrahús, íbúðir, öryggishlið, vöruskemmur og flugskýli, svo að eitthvað sé nefnt,“ segir Kjartan.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Reykjanes sem fylgir með Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .