„Síðustu tvo áratugi hefur líftæknin verið aflvaki sjálfbærrar framleiðslu og þróunar á fjölmörgum nýjum afurðum um heim allan," skrifar Einar Mäntylä doktor í sameindaerfðafræði og einn stofnenda ORF Líftækni í opnugrein í nýjasta Viðskiptablaði um hagnýtingu líftækni í atvinnulífinu.

Einar segir að þverfaglegt eðli líftækninnar birtist í víðtækri hagnýtingu hennar víðsvegar í samfélaginu. Þannig sé líftæknina oft að finna í fararbroddi nýsköpunar í hefðbundnum atvinnuvegum eins og landbúnaði og sjávarútvegi, en einnig í orkuiðnaði, framleiðsluiðnaði, þjónustuiðnaði og ekki síst í heilbrigðiskerfinu. „Þessir geirar atvinnulífsins standa undir verulegum hluta þjóðarframleiðslu á Íslandi," skrifar Einar.

Hér að neðan er úrdráttur úr grein Einars, sem hér setur fram sína sýn og skoðun á eðli líftækninnar.

Líftækni í landbúnaði

Dæmi um umfang líftækninnar sem snertir líf okkar allra eru mýmörg; líftæknin er gamalgróin í matvælaframeiðslu svo sem við ostagerð, bjórgerð og mjólkuriðnaði. Það má færa rök fyrir því að plöntukynbætur falli undir líftækni þar sem erfðaefni plöntuafbrigða, jafnvel mismunandi tegunda, er víxlað saman og stundum er allt erfðamengið tvö- eða þrefaldað í leiðinni í viðkomandi lífveru.

Auk víxlblöndunar hefur erfðaefninu verið margbreytt með því að framkalla stökkbreytingar með geislun eða efnum í kynbótaskyni og árangurinn er sú mikla fjölbreytni og framboð af hvers kyns grænmeti og kornmeti sem okkur þykir sjálfsögð og er í huga flestra hrein hollusta og fáir sem velta fyrir sér þeirri líftækni sem að baki býr.

Á síðari árum hefur kynbótastarfið orðið enn markvissara með erfðatækni og aukið uppskeru en dregið úr efnanotkun í hefðbundnum landbúnaði. Í dag eru um 14 milljónir bænda, þar af 95% efnalitlir smábændur, víðs vegar um heim að rækta nytjajurtir sem eru kynbættar með erfðatækni á yfir 130 milljónum hektara lands.

Þess eru merki að andstaða við erfðabreyttar nytjajurtir fari minnkandi enda benda áratuga rannsóknir bæði í Evrópu og annars staðar í heiminum til þess að þær séu ekki á nokkurn hátt síðri til neyslu eða fyrir umhverfið en svo kölluð hefðbundin matvæli. Þannig mun líftæknin í landbúnaði halda áfram að hverfa sjónum okkar inn í landbúnaðinn eins og hingað til.

Líftæknin í sjávarútvegi

Líftækni tengd sjávarfangi ætti að vera okkur nærtæk á Íslandi. Þar hafa risið fyrirtæki eins og Ensímtækni sem vinnur ensím úr vannýttu sjávarfangi og hefur þróað smyrsl og snyrtivörur úr þessum efniviði. Bragðefnavinnslur vinna lífefni úr mismunandi sjávarfangi og þar sem þekkingin er mest á hráefnisvinnslunni er um líftækni að ræða.

Fyrirtækið Genís hefur um langt árabil þróað vinnslu lífvirkra sameinda með læknisfræðilega eiginleika úr skeldýrum. Kerecis er fyrirtæki sem þróar sárameðferðir sem byggja á eiginleikum fiskiroðs. Þannig eru líftæknifyrirtæki og stofnanir eins og Matís að þróa nýja og betri nýtingu sjávarafla og skapa nýja markaði fyrir hráefnið þegar best gengur. Sjávarútvegs- og landbúnaðrráðuneytið beinir enda sérstökum stuðningi til líftækniverkefna innan AVS sjóðsins (Aukið Virði Sjávarfangs), og ekki að ástæðulausu.

Gömlu grunnatvinnuvegirnir eru virkir í líftækni en gætu verið betur meðvitaðri um það og gert miklu betur til að auka samkeppnishæfni sína.

Líftækni og lyfjaþróun

Um 20% allra lyfja á markaði í heiminum í dag eru framleidd með aðstoð líftækni. Helmingur allra lyfja í þróun eru líftæknilyf, flest svo kölluð próteinlyf framleidd með erfðatækni. Árangurinn hefur verið slíkur að lyfjaiðnaðurinn, hvort sem er frumlyfjaframleiðendur eða samheitalyfjaframleiðendur, hefur í vaxandi mæli tileinkað sér aðferðir og afurðir líftækninnar.

Sem dæmi um þetta má nefna að allt manna insúlín sem sykursýkissjúklingar um víða veröld nota til að hafa hemil á sykursýki er framleitt með erfðatækni og hefur svo verið í rúman aldarfjórðung. Þannig umbyltir líftæknin lyfjaþróun og lyfjaframleiðslu innan frá, en lyfjaiðnaðurinn mun áfram kenna sig við lyf þó svo hann sé í vaxandi mæli að umbreytast í líftækniiðnað. Auk þróunar nýrra lyfja mun líftæknin þurfa að þróa hagkvæmari framleiðsluaðferðir til að lækka lyfjakostnað og bæta aðgengi sjúklinga og heilbrigðiskerfa að bestu lyfjunum.

Á Íslandi hefur á undanförnum tíu árum verið þróuð framleiðslutækni í plöntum hjá ORF Líftækni sem kann að nýtast í þessum tilgangi, en fyrirtækið er orðið leiðandi á sviði plöntulíftækni í heiminum hvað varðar fjölda afurða til læknis- og lífvísindarannsókna.

Í læknisfræði hefur líftæknin þegar bylt mörgum greiningaraðferðum sjúkdóma og kemur stöðugt fram með nýjar og næmari aðferðir. Í Grafarholtinu framleiðir fyrirtækið Roche NimbleGen DNA örflögur sem notaðar eru við greiningar á erfðaefninu í vísindalegum tilgangi um allan heim. Fyrirtækið var fyrir nokkrum árum fyrst í heimi til þess að koma öllu erfðamengi mannsins fyrir á örflögum á smásjárgleri.

Í Vatnsmýrinni hefur Íslensk erfðagreining þróað aðferðir sem getur gert lyfjameðhöndlun markvissari og skilvirkari gagnvart einstaklingum. Hugtakið „personalized medicine“ mun hafa orðið til í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Auk afreka á sviði erfðafræðisjúkdóma er búið að byggja upp gríðarmikla þekkingu í lífupplýsingatækni innan fyrirtækisins til að rýna í rúnir erfðaefnisins. Sjálft orðið lífupplýsingatækni sýnir hversu auðveldlega líftæknin blandast öðrum greinum. Hjá Íslenskri erfðargreiningu leggja hönd á plóg stærðfræðingar, erfðafræðingar, læknar, líffræðingar, mannfræðingar, sagnfræðingar og rafmagnsverkfræðingar við eina afkastamestu rannsóknastofnun á sviði mannerfðafræði í heiminum.

DNA rannsókn er orðin lögfræðingum æ þjálari í munni enda hefur réttarlæknisfræðin tekið upp líftæknilegar aðferðir sem gerir unnt að magna upp DNA og bera kennsl á bréfsendanda af frímerki hótunarbréfs svo dæmi sé tekið. Mörgum er í fersku minni að óhjákvæmilegt þótti að grípa til DNA greiningar á hinum framliðna Bobby Fischer til að fá botn í faðernismál honum tengt.

Líftæknin í orku og iðnaði

Með nokkurri einföldun má segja að líftækni í iðnaði gegni því hlutverki að stuðla að vistvænni ferlum, minnka orkunotkun og draga úr mengandi áhrifum iðnaðar á umhverfið t.d. með innleiðingu efnahvata (ensíma) til að hraða efnaferlum. Slíkir efnahvatar eru einangraðir úr lífverum; sjávarfangi eða hveraörverum á Íslandi, og eru notaðir í pappírsiðnaði, fataiðnaði, þvottaefnum, tannkremum og snyrtivörum og eru mikilvægir þættir í að gera framleiðslu lífeldsneytis að hagkvæmum valkosti við jarðefnaeldsneyti.

Þá eru íslenskir fræðimenn að rannsaka möguleika vetnismyndandi örvera til eldsneytisframleiðslu. Íslenska líftæknifyrirtækið Prókatín er að þróa aðferðir við að nota líftækni til að fanga tærandi brennisteinsvetni úr gufu jarðaflsvirkjana með hjálp örvera og framleiða fóður sem hliðarafurð. Þar koma saman ólík svið jarðvarmavinnslu, verkfræði og líftækni með það að markmiði að draga úr mengun og fullnýta auðlindir. Og bæta nýrri vídd við þekkingu íslendinga á sjálfbærri beislun jarðvarma.

Greinin í heild birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 5. maí 2011.