Það er slæmt ef félög á borð við Gamma væru allsráðandi á markaðnum enda slíkt í algjörri andstöðu við húsnæðisstefnu borgarinnar. Á hinn bóginn er Gamma enn tiltölulega lítið félag á leigumarkaðnum, að sögn Hjálmars Sveinssonar, sem sæti á í skipulagsráði Reykjavíkurborgar.

Kjarninn fjallaði í síðustu viku um uppkaup Gamma á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að félagið á um 350 íbúðir. Til samanburðar eiga Félagsbúastaðir Reykjavíkurborgar um 2.200 íbúðir.

Hjálmar segir í samtali við Fréttablaðið leigufélög ekki þurfa að vera slæm. Hefð sé fyrir þeim víða erlendis. Hann skilji samt að fólki bregði við því kaup félaga og sjóða á húsnæði sé nýjung hér á landi.

„Þetta virkar svolítið eins og "cowboy-kapítalismi [...]. Það er augljóslega verið að kaupa mikið upp í Vesturbænum. Ég reikna með að leiguverð íbúða muni hækka og það er verið að nýta sér ákveðnar væntingar á markaði en þannig virkar kapítalisminn. Við viljum spyrna á móti með því að stórauka framboð á húsnæði," segir Hjálmar í samtali við Fréttablaðið.