Það er mat sérfræðinga að frekar líklegt sé að krónan hafi náð hámarksstyrk sínum í þeirri uppsveiflu sem nú stendur yfir. Bæði Arnar Jónsson forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðumiðlunar Landsbankans og Ingólfur Bender forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka töldu það frekar líklegt.

Sá miðað við gengisskráningu Seðlabankans, sem tekur mið af genginu klukkan 11 á morgni hvers viðskiptadags, náði krónan lágmarki sínu 4. nóvember síðastliðinn þegar gengisvísitalan fór í 100,5 stig.

Báðir voru þó á því að það sé alls ekki útilokað að krónan kunni að verða sterkari. ?Það sem hefur haft mikil áhrif á gjaldeyrismarkaðinn að undanförnu er þessi útgáfa erlendra aðila á íslenskum skuldabréfum. Ef að þessir erlendu aðilar munu halda áfram að gefa krónubréf gæti hún orðið sterkari. Þessi þáttur er í rauninni það eina sem er að styrkja krónuna," sagði Arnar. Ingólfur sagði að það þurfi að koma til mikill kraftur í skuldabréfaútgáfuna til að hafa veruleg styrkingaráhrif á krónuna. ?Ég er ekki alveg að sjá að við munum sjá aðra eins útgáfu eins og þá sem þegar er búið að gefa út. Útgáfan hefur ekki stöðvast en það er ekki nærri því eins mikill kraftur í henni eins og var í byrjun. Við þetta bætist að nýjustu útgáfurnar virðast vera að hafa minni áhrif á krónuna en útgáfan í upphafi. Jafnvel þó að útgáfan geti orðið mikil er ekki víst að hún megni að koma krónunni til að mynda niður fyrir 100 stig" Arnar bætti við að markaðurinn hér á landi er lítill og því er takmarkað svigrúm fyrir erlenda aðila til að skiptast á vaxtagreiðslum við innlendar lánastofnanir. ?Það er því ákveðin innibyggð tregða í kerfinu fyrir meira magni."

Útgáfan er komin í 140 milljarða króna á tiltölulega stuttum tíma og spyrja sumir sig að því hvort ekki hefði verið eðlilegt að hún hefði styrkst meira. ?Undir venjulegum kringumstæðum hefði styrkingin átt að verða enn meiri en hún varð. Margir sem eru með erlend lán hafa nýtt sér tækifærið sem hefur falist í miklum styrk krónunnar og greidd upp þau lán. Það hefur unnið á móti innflæðinu vegna skuldabréfaútgáfunnar," sagði Arnar.

Það er mat flestra að gengi krónunnar muni gefa eftir á næsta ári sökum mikils viðskiptahalla hér á landi. Ingólfur sagði að þrátt fyrir að gengisvísitalan hafi lækkað nokkuð frá því að krónan náði hámarki sínu megi ekki líta svo á að veikingarhrinan sé hafin. Viðskiptahallinn er uggvænlega mikill enda stefnir hann í að verða 15% á þessu ári samkvæmt spá Seðlabankans. Seðlabankinn er á þeirri skoðun að krónan muni gefa eftir en von þeirra er að þeir geti stýrt því ferli að einhverju leyti þannig að veikingin verði sem hægust. Þeir ætla sér að stýra því með því að halda vaxtamuninum þannig að veikingin verði hæg. Maður dregur þó í efa að þeir geti stýrt því og hvort að það sé rétt hjá bankanum að halda aðhagsstiginu svo háu svo lengi og keyra hagkerfið um leið niður í einhverja lægð.

Stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem tók gildi í síðustu viku hefur ekki megnað að styrkja gengi krónunnar. Það mætti heldur halda því fram að hún hafi verið of lítil og þess vegna hafi gengi krónunnar gefið eftir. Á sama tíma hækkaði Seðlabanki Evrópu sína vexti og jókst vaxtamunurinn því ekki gagnvart Evrópu. Ingólfur taldi líklegt að bankinn muni hækka vextina um 25 punkta 26. janúar næstkomandi þegar fyrsti formlegi vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans verður.

Arnar sagði að þessi skuldabréfaútgáfa gæti skapað mjög mikla veikingu þegar bréfin fara á lokadag. Ef það kemur í ljós á gjalddaga að bréfin hafa rýrnað um 5 til 10% prósent vegna veikingar krónunnar þá er ekki sjálfgefið að því verði framlengt, a.m.k. ekki því sem verður á gjalddaga þá. Arnar benti þó á að ef að krónan lækkar mjög mikið gætu einhverjir fjárfestar séð sér hag í því að bíða eftir að krónan muni styrkjast aftur. Það mun þá draga úr þrýstingi í veikingarátt.

Ef það verður raunin að krónan hafi náð hámarksstyrk sínum ætti það að kæta einhverja aðila í útflutnings- og samkeppnisgreinunum sem hafa kvartað sáran undan sterku gengi krónunnar sem rakið hefur verið til vaxtastefnu Seðlabankans.