Talið er líklegt að Seðlabanki Evrópu muni hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig í kjölfar vaxtafundar sem fer fram fimmtudag næstkomandi, segir greiningardeild Glitnis.

?Vextir bankans verða 3% gangi spár eftir og fólgnir vextir á peningamarkaði gefa til kynna væntingar um enn frekari hækkun stýrivaxta á næstu misserum. Verðbólga á Evrusvæðinu mældist 2,5% þriðja mánuðinn í röð samkvæmt tölum sem birtar voru í morgun og hefur verðbólgan núna reynst yfir 2% markmiði bankans fimmtán mánuði samfleytt," segir greiningardeildin.

Því til viðbótar birtust í morgun tölur um að tiltrú evrópskra neytenda hefur aukist og sýnist greiningardeildinni hún nú vera meiri en á undanförnum fimm árum.

?Þær tölur gefa þannig einnig til kynna meiri umsvif," segir greiningardeildin.