Seðlabankastjóri Japansbanka, Toshihiko Fukui, gaf það sterklega til kynna í gær að bankinn hyggðist halda áfram að hækka stýrivexti á þessu ári, meðal annars til að viðhalda jafnvægi í efnahagslífinu og tryggja það að verðbólga nái ekki fótfestu í japanska hagkerfinu. Japansbanki ákvað í febrúar síðastliðnum að hækka stýrivexti sína upp í 0,5% og var það fyrsta hækkun bankans frá því í júlí á síðasta ári.

Í ræðu sem seðlabankastjórinn hélt fyrir þingnefnd um fjár- og peningamál sagði Fukui að of lágir stýrivextir gætu skaðað hagkerfið og að í ljósi núverandi aðstæðna í japönsku efnahagslífi væri full þörf fyrir Japansbanka að vera vel á verði. Hagfræðingar telja að þessi ummæli bendi til að stjórnendur bankans séu enn fullvissir um að núverandi peningamálastefna sé rétt, enda þótt verðbólga hafi mælst neikvæð í febrúarmánuði um 0,1%.

Seiji Shiraishi, aðalhagfræðingur HSBC í Tókýó, segir að ástæðan fyrir því að Japansbanki vilji ekki lesa of mikið í þær verðbólgutölur sé einkum sú að verðbólgulækkunin skýrist fyrst og fremst vegna lægra olíuverðs. Hins vegar býst Japansbanki við því að það ástand muni ekki vara mikið lengur og að olíuverð fari hækkandi síðar á árinu. HSBC spáir því að ef ekki verður óvæntur samdráttur í bandaríska hagkerfinu á næstunni muni Japansbanki hækka stýrivexti sína annaðhvort í ágúst- eða septembermánuði upp í 0,75%.

Sumir hagfræðingar hafa gagnrýnt núverandi peningamálstefnu Japansbanka og telja að stýrivaxtahækkanir hans séu ótímabærar sökum þess að efnahagslífið sé ekki enn fyllilega búið að ná sér eftir þá stöðnun sem ríkt hefur í hagkerfinu frá því í byrjun tíunda áratugarins. Einnig hefur á það verið bent að einkaneysla eigi enn eftir að taka við sér þrátt fyrir að almenningur hafi meira fé á milli handanna en áður. Hins vegar eru flestir hagfræðingar á því að núverandi stýrivextir Japansbanka upp á 0,5% hafi að mjög takmörkuðu leyti neikvæð áhrif fyrir áframhaldandi hagvöxt í Japan. Flest japönsk fyrirtæki eiga mikið fjármagn sem þýðir að þau hafa litla þörf fyrir að taka lán í bönkum.