Haraldur Þórðarson
Haraldur Þórðarson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þróunin á hlutabréfamarkaði var að mörgu leyti lágstemmd framan af ári. Aukið framboð og fremur slöpp uppgjör á fyrsta ársfjórðungi, m.a. vegna aflabrests á loðnu, drógu að einhverju leyti úr áhættusækni fjárfesta,“ segir Haraldur I. Þórðarson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Straumi um þróun hlutabréfamarkaða á árinu.

„Í ofanálag leiddu háir raunvextir til þess að fjárfestar leituðu ef til vill síður í hlutabréf. Eftirspurn tók hins vegar kipp seinni partinn í haust í kjölfar góðra uppgjöra, vaxtalækkunar og viðskipta sem losuðu um fjármagn á markaðnum. Hlutabréfaverð tók því kipp upp á við – enda félögin í Kauphöll Íslands setið eftir í samanburði við félög erlendis og orðin ódýr út frá kennitölum séð. Utanaðkomandi þættir s.s. lækkun olíuverðs hafa svo stutt við áframhaldandi hækkanir og væntingar um góða afkomu á komandi misserum. Þessi þróun gefur því tilefni til að nýtt ár verði hagfellt og að sú bjartsýni muni endurspeglast í hlutabréfaverði,“ segir Haraldur.

Ólafur Jóhannsson.
Ólafur Jóhannsson.

Ólafur Jóhannsson, sjóðsstjóri hjá Landsbréfum segir markaðinn hafa verið tvískiptann á árinu. „Í ágúst má segja að hann hafi verið nokkuð þungur almennt og uppgjör félaganna á fyrri helmingi ársins voru örlítið undir væntingum. En uppgjörin á þriðja ársfjórðungi voru í raun yfir væntingum, þannig að þessar hækkanir sem hafa verið undanfarið eru studdar af góðum uppgjörum almennt. Svo er einnig mjög jákvætt að stjórnendur hafa verið að greiða mikið út úr félögunum, bæði með arðgreiðslum og með kaupum á eigin bréfum. Sáum það kannski sérstaklega í síðasta mánuði hjá Össuri og N1. Þetta er jákvætt og sýnir kannski að félögin eru mjög heilbrigð og sterk.“